Álftártungukirkja (1873)

Álftártungukirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Álftartungukirkja er í Borgarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi.  Fyrstu heimildir um kirkju í Álftártungu eru frá því um 1200.  Hún var afhelguð 1970 vegna þess, hve hún var orðin hrörleg.  Hún var byggð úr viðum Reykjavíkurkirkju 1795 og hluti þeirra er í núverandi kirkju.  Hún var endurbyggð 1873 og járnklædd um aldamótin 1900.  Smiður var Guðni Jónsson, bóndi á Valshamri.    Viðgerð fór fram á árunum 1984-88 og hún endurvígð.  Engu var breytt frá upphaflegri gerð hennar fyrr en 1905 eða 1906, þegar hún var klædd bárujárni.

Álftártungukirkja var aflögð 1970 en endurvígð 1988

Kaþólskar kirkjur á staðnum voru helgaðar Maríu guðsmóður.  Álftártungukirkja var fyrrum útkirkja frá Staðarhrauni en árið 1880 var sóknin lögð til Borgar, þar til helgihaldi var hætt.  Meðal merkra gripa kirkjunnar eru kaleikur og patina, kirkjuklukka frá 1722 með nafni Jóns Halldórssonar og aðra eldri.  Ásgeir Bjarnþórsson málaði altaristöfluna 1943.  Hún sýnir Jesú blessa börnin.  Árið 1906 var sænskt harmoníumorgel keypt í kirkjuna og það er notað enn þá.

Álftártungukirkja er timburhús, 7,63 m að lengd og 5,02 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er lágur turn með íbjúgum hliðum og risþaki. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir krosspóstagluggar og einn á framstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim eru rammar og sex rúður. Lítill fjögurra rúðu krosspóstsgluggi á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar hurðir. Að utan eru vængjahurðir en spjaldsett hurð að innan.

Gangur er inn af dyrum og bekkir hvorum megin hans. Yfir fremsta stafgólfi framkirkju er afþiljað loft á bitum og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili en málningarpappír er í reitunum. Yfir innri hluta framkirkju og kórs er reitaskipt hvelfing.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Álftártungukirkja - Staðsetning á korti.

 


Álftártungukirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd