Auðkúlukirkja (1894)

Auðkúlukirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Auðkúlukirkja er í Bólstaðarhlíðarprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Kirkja var reist á Auðkúlu við Svínavatn þegar í öndverðri kristni. Getur hér veglegrar trékirkju og var að henni tveggja presta skyld. Var staðurinn auðugur og hefðarból, enda landflæmi mikið og afréttartekjur háar. Svo mikils háttar bújörð var Auðkúla, að Jón biskup Arason hélt staðinn um tíma í ágóðaskyni. einungis einn prestur sótti burt af staðnum á 17. öld og annar á 18. öld, en enginn síðan, uns brauðið var lagt niður 1951.

Kirkjuhúsið, sem nú stendur, var reist 1894. Yfirsmiður var Þorsteinn Sigurðsson á Sauðárkróki. Kirkjustæðið var flutt suður og upp fyrir garðinn og stóð gamla kirkjan til haustsins, er komið var að vígslu hinnar nýju. Séra Hjörleifur Einarsson prófastur á Undirfelli vígði kirkjuna og gat hann þess í bréfi til biskups, að þegar gamla Auðkúlukirkjan var tekin ofan, hefði síðasta torfkirkjan hrofið af sviðinu í Húnaþingi. 

Auðkúlukirkja er, þegar grannt er skoðað, sporöskjulöguð, því að þilveggir, sem eru 2,3 m, hornaþilin 4 eru 2,1 m, en miðjuþil 3,63 m, innanmál. Kirkjubekkir eru skásettir og horfa við altari, en fram til 1930, er kirkjan var afhent söfnuðinum, var ekki predikunarstóll í henni. Var svo látið heita, að tæki 80 í sæti, en þröngt hefur verið setið. Fækkaði sætum, er stóllinn kom til og einnig, er ofn var settur að norðan við altari, þar sem nú er aðstaða fyrir kirkjusönginn og hljóðfærið.

Altarið er sneitt á hornum og snúa 3 spjaldahliðar fram, en gráturnar eru fimmstrendar, hvort tveggja í samræmi við stíl hússins. Klæði ásaumað eftir fyrirmynd á patínu, sem er gömul og góð við samstæðan kaleik, hnúðstóran og vænan, en yfir altarinu páskabjört tafla, málverk Andreas Tåstrups 1875, myndefnið: Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn. Önnur tafla, íslensk og máluð á tréspjöld í fyrra sið, er á þilvegg, dýrmætur forngripur eins og hin eldri kirkjuklukka, sem er þykk mjög og gefur tregan hljóm. Hin klukkan er frá 1755 og með hinu nýrra lagi og hljómfögur.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Auðkúlukirkja - Staðsetning á korti.

 


Auðkúlukirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd