Bæjarkirkja (1967)

Bæjarkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Bæjarkirkja er í Hvanneyrarprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Þar voru kaþólsku kirkjurnar helgaðar Ólafi helga Noregskonungi. Kirkjan, sem stendur þar nú, var vígð 1967 og skammt frá er félagsheimilið Brún. Skömmu eftir kristnitökuna, árið 1030, var stofað þar eitt fyrsta klaustur landsins. Stofnandinn var enskur biskup, Rúðólfur eða Hróðólfur, sem var frændi Játvarðs Bretakonungs hins helga. Hann stofnaði fyrsta skóla landsins og innleiddi latneskt letur í stað rúna. Mun hann á þessum árum hafa verið talinn yfirmaður kristinnar kirkju á Íslandi og Bær verið helsta miðstöð óslenskrar kristni. Bær skipar því merkilegan sess í íslenskri kirkjusögu. Síðar, fyrir 1050, þáði biskupinn af honum ábótadæmi í Abington og talið er að klaustrið hafi lagst niður fljótlega eftir það. Víða við klaustur landsins voru ræktaðar lækningajurtir, sumar innfluttar, og í Bæ hefur fundist villilaukur (allium oleraceum), sem er sjaldgæfur hérlendis.


Um miðbik þrettándu aldar bjó í Bæ Böðvar Þórðarson, bróðir Þorleifs í Görðum. Böðvar í Bæ var friðsamur höfðingi og kom stundum fram sem mannasættir. Hann reyndi að sætta þá Sturlu Sighvatsson og Þorleif fyrir Bæjarbardaga, en það tókst ekki. Böðvar átti að mörgu leyti erfitt um vik í sambandi við deilur höfðingja í landinu. Hann var náfrændi Sturlunga, en var kvæntur Herdísi Arnórsdóttur, systur Kolbeins unga. í eltingaleik Kolbeins við Þórð kakala gerði Böðvar sitt til að bjarga Þórði undan heift Kolbeins. Fáir stórhöfðingjar Íslands á Sturlungaöld héldu sér svo mjög utan við deilur og vígaferli sem Böðvar í Bæ. En vinsæll og mikils metinn hefur hann eflaust verið um sína daga.


Sögulegasti atburðurinn í Bæ á Sturlungaöld er auðvitað Bæjarbardagi, sem háður var hinn 28. apríl 1237, en af honum hefur Sturla Þórðarson skráð ýtarlega frásögn. Bæjarbardagi er sennilega mannskæðasta orrusta, sem nokkru sinni hefur verið háð í Borgarfjarðarhéraði, þó að ekki verði það fullyrt með öruggri vissu. Var hann milli sveita Þorleifs Þórðarsonar og Sturlu Sighvatssonar. Þar féllu yfir þrjátíu menn, en aðrir hlutu grið í Bæjarkirkju.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Bæjarkirkja - Staðsetning á korti.

 


Bæjarkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd