Fríkirkjan í Hafnarfirði (1913)

Fríkirkjan í Hafnarfirði

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Fríkirkjusöfnuðurinn í Hafnarfirði var stofnaður á sumardaginn fyrsta árið 1913. Ein aðalástæðan fyrir stofnun sjálfstæðs safnaðar var sú hugsjón að byggja kirkju í Hafnarfirði en þá hafði engin kirkja verið í Hafnarfirði um aldir og Hafnfirðingar átt kirkjusókn að Görðum sem þótti löng leið að fara. Hafist var handa við kirkjubyggingu um mitt sumar 1913 og þessi fyrsta kirkja Hafnfirðinga vígð í desember sama ár. Söfnuðurinn náði fljótt góðri fótfestu í bænum og safnaðarfólki fjölgaði hratt. Árið 1982 voru um 1.800 manns í söfnuðinum en 1. des. árið 2007 var fjöldinn kominn í  5.024  og fjölgar jafnt og þétt.

Fyrsti prestur kirkjunnar var sr. Ólafur Ólafsson sem jafnframt þjónaði Fríkirkjunni í Reykjavík og fyrsti formaður safnaðarstjórnar var Jóhannes Reykdal verksmiðjueigandi hér í Hafnarfirði. Davíð Kristjánsson trésmíðameistari teiknaði kirkjuna og fyrirtækið Dvergur sá um framkvæmdir.

Árið 1931 fóru fram talsverðar endurbætur á kirkjunni. Turn kirkjunnar var stækkaður og kórinn byggður við og fékk núverandi mynd. Teikningar að kór og turni gerði Guðmundur Einarsson trésmíðameistari. Árið 1982 voru smíðaðar fjórar viðbyggingar við kirkjuna, skrúðhús og anddyri við bakdyr og biðherbergi og snyrting við forkirkju. Teikningar gerði Óli G. H. Þórðarson arkitekt.

Umfangsmestu endurbæturnar á kirkjunni fóru svo fram sumarið og haustið 1998. Þá var kirkjan öll endurnýjuð að innan. Kirkjan var þá að nýju klædd með panel og skipt var um gólfefni svo fátt eitt sé nefnt. Umsjón með breytingunum höfðu Þorsteinn Gunnarsson arkitekt og verkfræðistofan Línuhönnun. Verktakar voru fyrirtækið Gamlhús. Kirkjan var endurvígð af biskup Íslands, hr. Karli Sigurbjörnssyni, 13. desember 1998.

Lesa má um sögu sögu Fríkirkjunar í Hafnarfirði á heimasíðu kirkjunar.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Fríkirkjan í Hafnarfirði - Staðsetning á korti.

 


Fríkirkjan í Hafnarfirði - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd