Geirsstaðakirkja (2001)

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Geirsstaðakirkja er endurgerð torfkirkja frá Víkingaöld (930 til 1262). Sumarið 1997 fór fram fornleifarannsókn að Geirsstöðum á vegum Minjasafns Austurlands undir stjórn Steinunnar Kristjánsdóttur. Sú rannsókn leiddi í ljós fornt bæjarstæði. Rústirnar voru af lítilli torfkirkju, langhúsi og tveimur minni byggingum. Túngarður úr torfi  umlukti byggingarnar.

 

Kirkjan var byggð úr torfi, grjóti og við og snýr í austur-vestur, sem venjan var með kirkjur. Kirkjan á Geirsstöðum hefur verið kirkja af algengri gerð kirkna frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, svokallaður rómanskur stíll kirkjubygginga sem var langalgengastur á fyrstu öldum kristni í Noregi og á Íslandi. Líklega var kirkjan einungis ætluð heimilisfólki á einum bæ. Geirstaðir gætu hafa verið bær Hróars, sonar Una danska, eins landnámsmanna Austurlands. Hróar er talinn hafa búið að Hofi en Hof var sagt hafa verið vestan Lagarfljóts, austan Jökulsár og utan við Rangá. Sú lýsing á við um Geirsstaði, svo hugsanlega hefur Geirsstaðakirkja verið heimakirkja Hróars, sem Hróarstungan dregur nafn sitt af.

Geirsstaðakirkja var endurbyggð í landi Litla-Bakka í Hróartungu 1999-2001, undir leiðsögn Gunnars Bjarnasonar húsasmíðameistara, Guðjóns Kristinssonar torfhleðslumanns og safnstjóra Minjasafns Austurlands. Víkingaskipið fyrir framan garðinn hlóð Donald Gunn, skoskur steinhleðslumaður, árið 2001. Kirkjan var byggð með fjármagni sem kom að miklu leyti úr sjóðum Evrópusambandsins, en einnig frá Vísindasjóði Rannsóknarráðs Íslands, Norður-Héraði og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Geirsstaðakirkja var blessuð sumarið 2001 af héraðsprestinum í Hróarstungu, Jóhönnu Sigmarsdóttur og skírt í henni sama sumar.  Geirsstaðakirkja er gott dæmi um áþreifanlegan afrakstur fornleifarannsóknar og menningartengda ferðaþjónustu.

Heimild Minjasafn Austurlands.


 

Geirsstaðakirkja - Staðsetning á korti.

 


Geirsstaðakirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur