Gilsbakkakirkja (1908)

Gilsbakkakirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar


Kirkjan á Gilsbakka er fyrst nefnd í kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups í frá því um 1200 og var í kaþólskum sið helguð Maríu guðsmóður, Mikkjáli erkiengli og Nikulási biskupi.

Samkvæmt Vilkinsmáldaga 1397 var öll Gilsbakkajörðin eign kirkjunnar. Þar var að líkindum fljótlega staður eða prestssetur og þar sátu prestar allt til 1918 þegar Gilsbakkasókn var sameinuð Reykholtssókn. Þjónuðu Gilsbakkaprestar jafnan kirkjunni í Síðumúla og framan af öldum, allt til 1605, Stóra-Ásskirkju. Gilsbakkasókn náði frá Sámsstöðum að Hallkelsstöðum en frá 1812 til Kalmannstungu, en þá var Kalmannstungukirkja aflögð.

Gilsbakkakirkja var afhent söfnuðinum til eignar og umsjár árið 1907. Núverandi kirkja er frá 1908 en var endurbyggð 1953. Hún er að grunnfleti 6 x 4,60 m, forkirkja (stöpull) er 2,30 x 2 m. Hún var upphaflega smíðuð úr timbri en steypt hefur verið utan um hana.

Altaristaflan er olíumálverk eftir Ásgeir Bjarnþórsson frá 1956, gefinn kirkjunni 1966. Altarisstjaka á kirkjan tvo úr látúni og samstætt blómaker, gefið kirkjunni 1964 til minningar um sr. Einar Pálsson og konu hans Jóhönnu Eggertsdóttur Briem. Ljósahjálmur, útskorinn í tré, er í lofti kirkjunnar. Ýmsar aðrar minningargjafir á kirkjan.

Af gömlum búnaði á kirkjan patínudúk, baldýraðan með innsetningarorðunum, merktan H.I.Þ.V. brauðöskjur renndar af birki og málaðar, kaleik og patínu af silfri og útsaumaðan altarisdúk úr lérefti. Þá á kirkjan tvær koparklukkur í turni, önnur er frá 1742, hin ber áletrunina „Ionas R.I.S. 1734“. Kirkjan á ljósprentað eintak af Guðbrandsbiblíu.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Gilsbakkakirkja - Staðsetning á korti.

 


Gilsbakkakirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd