Grundarfjarðarkirkja (1966)

Grundarfjarðarkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Grundarfjarðarkirkja var vígð 31. júlí árið 1966 og hafði verið rúm sex ár í smíðum. Arkitekt var Halldór Halldórsson, sem teiknaði m.a.Dalvíkurkirkju. Prestur Setbergsprestakalls sem þá var sr. Magnús Guðmundsson hvatti mjög til að byggð yrði ný kirkja í kauptúninu. Sóknarkirkjan á Setbergi hafði verið kirkjustaður og prestssetur frá því á 16. öld en þéttbýli myndaðist ekki í Eyrarsveit fyrr en upp úr 1940.

Kirkjan er byggð í áföngum. Að smíðinni komu tvisvar sinnum hópar erlendra og innlendra sjálfboðaliða frá hinum ýmsu kirkjudeildum. 1982 lauk seinni áfanga og var um leið haldið upp á 90 ára afmæli Setbergskirkju.

Gréta og Jón Björnsson völdu alla liti á kirkjuna og máluðu þau allar skreytingar. Gréta valdi bæði veggljós og krónu sem nú er við vesturgafl. Ljósin eiga að minna á landþernur eða siglingaljós og skipsstýri. Predikunarstóll smíðaður af Snæbirni Jónssyni úr Sauðeyjum á Breiðafirði ber svip af stafni skips.

Gluggar í kór eru málaðir af Finni Jónssyni listmálara.
Glugginn á vesturgafli er málaður af Eiríki Smith og smíðaður á þýsku glerverkstæði Oidtman bræðra 1984.
Altaristaflan er máluð af Halldóri Péturssyni listmálara.
Undir vesturgluggum er skápur með ljósritun af Guðbrandsbiblíu.

Það var fyrir áhuga sr. Jóns Þorsteinssonar sem þjónaði á árunum 1974-1990 að ráðist var í kaup á þrettán radda orgeli, sem var smíðað í Þýskalandi af orgelsmiðnum Reinhart Tzschöckel. Gjafir og safnanir safnaðarfólks gerði kirkjunni kleift að eignast hljóðfærið nánast skuldlaust. Það gengur eins og rauður þráður gegnum alla byggingar-söguna að vinir og velunnarar kirkjunnar hafa lagt henni lið hvort heldur er með vinnu, peningagjöfum eða útvegun gripa sem prýða kirkjuna og gagnast í safnaðarstarfinu.

1993 lauk endanlegum frágangi kirkjunnar. Þá voru settir varanlegir bekkir og ný gólfefni ásamt ýmsum öðrum endurbótum innan dyra. Ennfremur var lýsing endurhönnuð og rakatæki sett upp. Lionsklúbbur Grundarfjarðar gáfu upptökuvél og búnað til að senda mynd út í dvalarheimilið Fellaskjól. Herdís Sigurlín Gísladóttir frá Hellnafelli styrkti endurbætur á búnaðinum til minningar um eiginmann sinn Árna Sveinbjörnsson og son þeirra Gísla Árnason sem fórst með Krossnesinu árið 1992.  

Arkitektar þessa lokaáfanga voru Árni og Sigbjörn Kjartanssynir. Þá var sóknarprestur sr. Sigurður Kr. Sigurðsson sem þjónaði frá 1990-1995.

Haustið 1998 færði Þorkell Sigurðsson fyrrverandi kaupfélagsstjóri í Grundarfirði kirkjunni forláta gullljósakrónu að gjöf til minningar um konu sína Kristínu Kristjánsdóttur ljósmóður og fleiri. Yfir kirkjuskipi hangir önnur eins króna sem keypt var til minningar um Óskar Sæmundsson sem var mikill kirkjuvinur og arfleiddi Grundarfjarðarkirkju að öllum eigum sínum.

Heimild: Heimasíða Grundarfjarðarbæjar.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Grundarfjarðarkirkja - Staðsetning á korti.

 


Grundarfjarðarkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd