Haukadalskirkja (1843)

Haukadalskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Haukadalskirkja er í Skálholtsprestakalli í Árnesprófastsdæmi.  Katólsku kirkjurnar í Haukadal voru helgaðar guði, Maríu guðsmóður, Andrési postula, Marteini biskupi og heilagri Barböru.  Þar var útkirkja frá Torfastöðum en nú tilheyrir kirkjan Skálholti.  Fyrsta kirkjan mun hafa verið byggð árið 1030 Kirkjan, sem nú stendur var upphaflega byggð á árunum 1842-43, en var rifin 1939 og endurbyggð á steyptum grunni.  Þá var kirkjuskipið lengt og gluggum fjölgað.  Altaristafla, Altari, bekkir og fleira var endurnýjað.  Ásmundur Sveinsson skar altaristöfluna, sem sýnir krossfestinguna, út í perutré.  Kirkjan á silfurkaleik með patínu, altarisstjaka úr kopar og ljósahjálm.  Á kirkjuhurðinni er skjöldur, sem var upphaflega reiðaskjöldur, og á hann er festur hringur.

Um þennan hring og rúst hjá kirkjugarðinum er til þjóðsaga.  Þegar kristni fór að breiðast út um landið, bjó risinn Bergþór í Bláfelli ásamt konu sinni Hrefnu, sem hvatti bónda sinn til að flytjast brott frá þessum óþolandi hávaða í kirkjuklukkunum niðri í byggðinni.  Hann fór hvergi en hún færði sig norður fyrir Hvítárvatn, þar sem heitir Hrefnubúðir.  Bergþór gerði sér dælt við byggðamenn og fór stundum í kaupstað til innkaupa.  Þegar aldurinn færðist yfir hann, fór hann eitt sinn niður að Haukadal og bað bóndann um að tryggja sér legstað, þar sem heyrðist klukknahljóð og árniður, og bað hann að flytja sig dauðan í Haukadal.

Til merkis um, að hann væri dauður, yrði göngustafur hans við bæjardyrnar í Haukadal.  Þá skyldi bóndi vitja hans í hellinum í Bláfelli og hafa að launum það, sem hann fyndi í kistli hans.  Bóndi fór eftir þessum tilmælum og fann ekkert annað en þurr lauf í kistlinum og lét þau vera.  Vinnumaður hans fyllti vasa sína af laufum og þegar þeir voru komnir niður í Haukadal með líkið, voru þau orðin að gulli.  Bóndinn lét jarða Bergþór norðan kirkjunnar, þar sem er aflangur hryggur og bratt niður að Beiná.  Þar heitir nú Bergþórsleiði.  Hringurinn, sem var á göngustaf Bergþórs, er sagður prýða kirkjuhurðina.

Gönguleið upp á Haukadalsheiði hefst í Skógræktinni í Haukadal.  Þegar upp er komið, er hægt að halda alla leið að Hagavatni, út á Kjalveg í austri eða að Brunnum í vestri.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Haukadalskirkja - Staðsetning á korti.

 


Haukadalskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd