Hjallakirkja (1993)

Hjallakirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Hjallasókn var mynduð með skiptingu Digranessóknar. Stofndagur var 25. maí 1987 en þann dag var stofnfundur Hjallasóknar haldinn í Digranesskóla í framhaldi af því að Dóms- og kirkjumálaráðuneytið birti auglýsingu um stofnun safnaðarins 19. maí 1987.

Fyrstu verkefni sóknarnefndarinnar voru þau að kjósa nýjan prest og var sr. Kristján Einar Þorvarðarson valinn. Safnaðarstarf hófst í Digranesskóla en messuheimili safnaðarins var vígt í skólanum hinn 10. janúar 1988.

Kirkjan var vígð á Páskadag, 11. apríl 1993 kl. 16. Biskup Íslands, hr. Ólafur Skúlason, vígði kirkjuna og sóknarprestur, sr. Kristján Einar Þorvarðarson þjónaði fyrir altari. Yngri og eldri barnakór Hjallaskóla söng á undan athöfn undir stjórn Guðrúnar Magnúsdóttur. Kór Hjallakirkju flutti Þýska messu eftir Franz Schubert, einsöngvari með kórnum var Sigríður Gröndal. Gunnar Kvaran lék á selló, Guðrún Birgisdóttir og Martial Nardeu á flautur. Organisti og söngstjóri var Oddný J. Þorsteinsdóttir.

Þann 28. janúar 1996 var neðri hæð kirkjunnar formlega tekin í notkun og aðstaða fyrir starfsfólk því fullfrágengin. Dómprófastur, sr. Guðmundur Þorsteinsson, helgaði húsnæðið og bað öllu starfi sem þar færi fram Guðs blessunar.

25. febrúar 2001 var nýtt orgel vígt og tekið í notkun í kirkjunni. Orgelið smíðaði Björgvin Tómasson. Hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, vígði orgelið og prédikaði við vígsluguðsþjónustuna. Um sumarið þetta sama ár var lokið við frágang gólfefna á efri hæð. Varanlegt gólfefni var lagt á kirkjusal og anddyri kirkjunnar, og parket í efri safnaðarsal. Þá var kirkjan máluð að innan að mestu.

Af munum kirkjunnar má nefna altarisbrík sem gefin var af börnum sr. Gunnars Árnasonar, fyrrum sóknarprests í Kópavogskirkju. Á altari kirkjunnar eru tveir koparstjakar sem voru færðir kirkjunni að gjöf. Þá var kirkjunni gefið lespúlt er stendur inni í kirkjuskipi, minningargjöf til minningar um Pál Helgason. Sem áður sagði var nýtt orgel tekið í notkun og vígt í febrúar 2001, orgelið smíðaði Björgvin Tómasson. Fjölskylda sr. Kristjáns Einars Þorvarðarsonar gaf kirkjunni ljósastjaka sem vígður var á Allra heilagra messu 2003. Stjakann gerði Gunnsteinn Gíslason, myndlistamaður. Gunnsteinn gerði einnig stjaka undir páskakerti sem vígður var á Páskadag 2005.

Sjá nánar um sögu Hjallakirkju og Hjallasóknar.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Hjallakirkja - Staðsetning á korti.

 


Hjallakirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd