Hofskirkja á Skagaströnd (1876)

Hofskirkja á Skagaströnd

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Hofskirkja á Skagaströnd  er í Höskuldsstaðaprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi.  Hof var prestsetur á Skagaströnd, u.þ.b. 9 km norðan Höfðakaupsstaðar (Skagastrandar).  Þar eru tóttir, sem kunna að vera af hofi, kallaðar Goðatóttir.  Í kaþólskum sið voru kirkjur staðarins helgaðar Ólafi hinum helga, Noregskonungi.

Prestakallið var lagt niður 1907 og sóknir hennar lagðar til Höskuldsstaða.  Timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð árið 1876.  Veggir hennar eru múrhúðaðir að utan og þakið járnklætt.  Hún er turnlaus en með krossi á stafni.  Bogalagaðir gluggar tóku við af fernyrndum og ekkert söngloft er í kirkjunni.  Prédikunarstóllinn er ævagamall, trénegldur, með myndum af guðspjallamönnunum.  Altaristaflan er gömul og sýnir upprisuna og er talið að hún sé íslensk.

Hofskirkja er timburhús, 10,06 m að lengd og 6,41 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er trékross. Kirkjan er klædd listaþili, þak trapisustáli og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir póstagluggar með tveimur fjögurra rúða römmum og einn heldur minni er á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, okahurðir utan en spjaldahurðir að innan. Trétröppur með fimm þrepum eru framundan kirkjudyrum.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Hofskirkja á Skagaströnd - Staðsetning á korti.

 


Hofskirkja á Skagaströnd - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd