Hraunskirkja (1885)

Hraunskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Hraunskirkja er í Þingeyrarprestakalli í Ísafjarðarprófastsdæmi.  Hraun er eyðibýli og kirkjustaður í Keldudal.  Þar voru katólskar kirkjur helgaðar Þorláki biskupi helga og útkirkja frá Söndum og síðan 1932 frá Þingeyri.  Kirkjan, sem nú stendur þar, var byggð og vígð 1885.  Hún var aflögð sem sóknarkirkja árið 1971, þegar dalurinn fór í eyði.  Smiður var Aðalsteinn Pálsson, bóndi á Hrauni, sem gaf söfnuðinum kirkjuna.  Hún stendur rétt utan gamla kirkjugarðsins, þar sem eldri kirkjur stóðu.  Í kirkjunni kemur fram elzta formgerð timburkirkna.  Sérkenni hennar er þakspónninn, sem sýnir, hvernig hún var smíðuð upphaflega, þótt þakið væri fljótlega klætt með bárujárni.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.

Kirkjan í Hrauni stendur í Keldudal yst í sunnanverðum Dýrafirðinum. Hennar er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar og var hún þá helguð sælum Þorláki biskupi. Prestskyld var að Hrauni og tók prestur 4 merkur í kaup, en á síðari öldum var kirkjan annexía frá Söndum og frá Þingeyri síðan 1932.

Elsti varðveitti máldagi kirkjunnar er talinn gerður af Oddgeiri biskupi Þorsteinssyni um 1378. Kirkja var þó áður að Hrauni eða a.m.k. frá 12. öld. Í máldaganum átti kirkjan jörðina Saura sem var metin á 12 hundruð í jarðabók 1709. Aðrar jarðir eignaðist kirkjan ekki, en hún átti skógarítak í botni Dýrafjarðar og hálfan reka í Keflavík í Súgandafirði.

Niðurrif kirkjunnar var í bígerð og munir hennar voru fjarlægðir en Þjóðminjasafnið skarst í leikinn og söfnuðurinn tók að sér gagngerar endurbætur á henni á árunum 1998-99.  Hún var endurvígð og tekin í notkun árið 2000. Kirkjuna prýða merkir gripir, m.a. prédíkunarstóll, sem er talinn vera verk sera Hjalta Þorsteinssonar í Vatnsfirði (1692-1742), og tvær altaristöflur ofan altaris.  Hin neðri er með áletruninni Eggerd Ionsen A. Røyn 1751 en óvíst er um aldur hinnar efri.  Uppsprettan Gvendarbrunnur er skammt frá kirkjunni og þaðan þótti sjálfsagt að taka vatn til skírna.  Keldudalur hefur verið óbyggður síðan 1987.


 

Hraunskirkja - Staðsetning á korti.

 


Hraunskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd