Húsafellskapella (1973)

Húsafellskapella

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Húsafellskirkja var í kaþólskum sið helguð Guði, Maríu Guðsmóður og heilagri Cecilíu. Í sögu hennar er getið um kraftaverk sem gerðust á Húsafelli, þegar heitið var á hana og enn þann dag í dag eru Húsafellskirkja og heilög Cecilía sögð góð til áheita. Örnefni eru á Húsafelli sem minna á heilaga Cecilíu.

Sesseljuvarða er þar sem fyrst sást til kirkjunnar af veginum til Húsafells. Sesseljuvík í Arnarvatni stóra ber nafn hennar og átti Húsafell þar veiðirétt.
Af heimildum má ráða, að kirkja hafi verið á Húsafelli frá fornu fari. Einhvern tíma á árunum 1152-1176 varð Húsafell „staður“ þegar Brandur Þórarinsson lagði kirkjunni til Húsafellsland og annað land sem þar fylgir, með landsnytjum öllum. Lengi var deilt um hvort Húsafell teldist staður eða eign Skálholtskirkju eins og frá er greint í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Kirkja í Kalmanstungu var anexía frá Húsafelli, uns báðar voru afteknar með konungsbréfi frá 21. ágúst 1812. Þá var Kalmanstungusókn lögð til Gilsbakka en Húsafellssókn til Stóra-Áss. Fram að þeim tíma hafði Stóra-Ásskirkja verið anexía frá Húsafelli frá 1605, en lá áður til Gilsbakka. Getið er kirkju í Reyðarfelli í Geitlandi, en hún var aftekin 1442. Húsafell var lagt til Reykholts þá kirkjan var aftekin.

Bygging kapellunnar sem nú stendur á Húsafelli hófst fyrir miðja 20. öldina og var hún vígð 1973. Í máldaga sem henni var settur við vígsluna er greint svo frá, að henni hafi verið lagðar til eftirfarandi eignir: Einn hektari lands úr óskiptu landi Húsafells ásamt helmingi sameiginlegrar veiði Húsafellsjarða (þ.e.a.s. sem svarar til veiðiréttar Húsafells III alls), ítök þau er getið er í fornum lögfestum staðarins, það er „tveggja manna íför í alar Gilsbakkaveiðar“ og veðréttur í húsum og landi Húsafells III. Sum ítökin hafa verið leyst undan kirkjunni.

Kirkjuhúsið er hlaðið af holsteini en klætt utan láréttri timburklæðningu að öðru leyti en því, að stöpull kirkjunnar hefur standandi vatnsklæðningu. Að innanmáli er kirkjan 8,60 x 2,40 m. Kórþrep eru í kirkju og prédikunarstóll og lítil sakristía hvorum megin öndverð í kór. Opið er milli stöpuls og kirkju. Kirkjan er viðunandi búin gripum og búnaði. Þar eru varðveittir gamlir legsteinar úr kirkjugarðinum, meðal annars legsteinn sr. Snorra Björnssonar sem þjónaði Húsafellskirkju frá 1757 - 1796. Hann mun vera þekktastur Húsafellspresta á síðari öldum, skáld og kunnáttumaður. Altaristafla Húsafellskirkju er málverk af krossfestingunni, máluð af Páli Guðmundssyni á Húsafelli.

Ásgrímur Jónsson, listmálari, teiknaði kirkjuna en arkitekt var Halldór H. Jónsson. Kristinn Kristjánsson var yfirsmiður. Hún er tekur 60-70 manns í sæti.

Heimild: Heimasíða Borgarfjarðarprófastsdæmis.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Húsafellskapella - Staðsetning á korti.

 


Húsafellskapella - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd