Hvammskirkja í Norðurárdal (1880)

Hvammskirkja í Norðurárdal

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Kirkja hefur staðið í Hvammi frá því snemma á öldum, en hennar er getið í kirknatali Páls Jónssonar biskups í Skálholti frá þvi um 1200. Hefur þar lengstum verið prestssetur.

Elsti máldagi kirkjunnar sem varðveist hefur er frá 1223 og mun vera vígslumáldagi hennar. Hún var þá helguð Maríu guðsmóður og hinum helga Þorláki biskupi.

Þótt kirkja hafi verið reist í Hvammi snemma eignaðist hún ekki staðinn fyrr en löngu seinna eða 1522. Það ár gaf sr. Helgi Jónsson prestur kirkjunni Hvamm og jarðirnar Galtarhöfða og Sanddalstungu til prestseturs ásamt ýmsu öðru. Hvammskirkja átti þá einnig Klettstíu, Desey, Fornahvamm, Krók, Háreksstaði og Hól.

Prestssetur var í Hvammi allt fram til 1907 en þá varð mikill niðurskurður á prestaköllunum í landinu og þeim fækkað mjög með lögum. Þá var m.a. ákveðið að leggja Hvamm undir Stafholt og kom sú sameining til framkvæmda 1911, þegar sr. Gísli Einarsson flutti frá Hvammi að Stafholti.

Kirkjan sem nú stendur í Hvammi var reist 1880. Þá var þar prestur sr. Gunnlaugur Þorvaldur Stefánsson, sonur sr. Stefáns Þorvaldssonar í Stafholti. Áður hafði verið efnað í nýja kirkju og komst hún upp um sumarið og haustið 1880. Er kirkjan lítið en snoturt hús með turni en enga forkirkju og tekur um 50 manns í sæti. Verulegar endurbætur voru gerðar á kirkjunni upp úr 1970 og margt þá fært til fyrra horfs svo segja má, að hún sé nærri sinni upprunalegu mynd.

Turn kirkjunnar var endurbyggður árið 2009 og tekur mið af turni kirkjunnar á fyrri hluta 20. aldar.  Upprunalegi turninn fauk af kirkjunni árið 1951 og þegar var skipt um klæðningu á kirkjunni var sótt um hjá húsafriðunarnefnd að færa turninn í upprunalegt horf . Hrafnhildur Sverrisdóttir arkitekt í Hvammi teiknaði turninn upp eftir gömlum ljósmyndum.

Kirkjan á nokkra góða gripi. Má þar nefna kaleik og patínu með ártalinu 1826 merkt EG. Sennilega er þetta fangamark Eggerts Guðmundssonar gullsmiðs í Sólheimatungu. Kaleikurinn er talinn kjörgripur, gerður af silfri með tveimur gullplötum með stafafléttunum MPS og GGD.  Altaristaflan er málverk eftir Þórarinn B. Þorláksson, listmálara, og sýnir Emmausgönguna. Eftirmynd að danskri fyrirmynd, að því talið er.  Kirkjuklukka er aðeins ein, með áletruninni 1791, dönsk að uppruna.  Skírnarsáinn skar Ríkharður Jónsson og var hann færður kirkjunni á 90 ára afmæli kirkjuhússins til minningar um prestshjónin í Hvammi.  Stéttarsamband bænda gaf kirkjunni fyrir allmörgum árum fótstigið orgel (harmoníum) til minningar um fyrsta formann sambandsins, Sverri Gíslason bónda og organista í Hvammi.

Ljósmynd Sverrir Guðmundsson.


 

Hvammskirkja í Norðurárdal - Staðsetning á korti.

 


Hvammskirkja í Norðurárdal - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd