Ísafjarðarkirkja (1995)

Ísafjarðarkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Ísafjarðarkirkja er í Ísafjarðarprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.  Kirkjan var vígð á uppstigningardag árið 1995.  Hún er teiknuð af Hróbjarti Hróbjartssyni og félögum hans hjá VA-arkitektum.  Lögun hennar táknar öldur hafsins

Áður en Ísafjarðarkaupstaður varð til þá var staðurinn nefndur Eyri við Skutulsfjörð. Eyri var um aldir kirkjustaður.  Á katólskri tíð stóðu þar kirkjur, sem helgaðar voru Maríu guðsmóður og Jóhannesi, lærisveininum, sem Jesús elskaði.  Flestar munu þær kirkjur hafa staðið í eða við kirkjugarðinn, þó ekki allar á sama grunni.

Gamla kirkjan á Ísafirði, var vígð 16. ágúst 1863.  Frumkvöðull að byggingu hennar var séra Hálfdán Einarsson (1801-1865).  Einar, sonur hans, sem hafði lært snikkaraiðn, var yfirsmiður. Í upphafi var gamla kirkjan timburklædd með standandi þilklæðningu og rennisúð á þaki.  Sætin í kirkjunni voru niðri í tveimur stúkum, sem lokuðust með lágum spjaldþiljum að framan, aftan og að miðju kirkjuskipsins og gengið var í bekki frá gangi með útveggjum.  Þessu var breytt árið 1882 þegar byggður var kór við kirkjuna og hann málaður blár með stjörnum í loftinu.  Þá kom einnig Kristslíkneski Thorvaldsens á altarið.  Leonhard Tang gaf kirkjunni skírnarfont árið 1899 og aldamótaárið kom svo ofn í kirkjuna.  Raflýsing kom ekki fyrr en árið 1921.  Árið 1932 fór fram viðgerð á kirkjunni og var hún klædd utan með pappa og bárujárni.  Árið 1934 var byggð orgelstúka við kirkjuna.  Á aldarafmæli gömlu kirkjunnar var henni gefinn prédikunarstóll úr eik með útskornum líkneskjum af guðspjallamönnunum, gerður af Ágústi Sigurmundssyni.  Gefendur voru brottfluttir Ísfirðingar.  Kirkjan og innviðir hennar stórskemmdust í bruna í júlí 1987.

Margir góðir gripir úr gömlu kirkjunni eru í vörslu Þjóðminjasafnsins, s.s. málað trélíkneski af Maríu guðsmóður frá því um 1500 og lítil altaristafla, máluð á tré.  Skírnarfatið úr gamla marmaraskírnarsánum stóðst eldinn og er það í nýjum skírnarfonti í kirkjunni.  Kirkjuklukkurnar eru þar líka.  Hökklar kirkjunnar og megnið af kirkjusilfrinu lenti ekki í brunanum því munirnir voru geymdir í safnaðarheimili kirkjunnar.

Eftir brunann var tekist á um það í söfnuðinum hvort endurreisa skyldi gömlu kirkjuna eða byggja nýja.  Sóknarnefnd fékk Gylfa Guðjónsson arkitekt til að gera tillögu að nýrri kirkju á uppfyllingu fyrir framan nýja sjúkrahúsið með það að markmiði að hægt væri að varðveita gömlu kirkjuna á sínum stað.  Þeirri hugmynd var hafnað í almennri atkvæðagreiðslu. Teikning Gylfa var síðar notuð til að byggja kirkju á Eskifirði.  Þá lagði Húsafriðunarnefnd ríkisins fram tillögu um hvernig mætti varðveita gömlu kirkjuna með því að lengja hana til austurs og byggja við hana tvo skála er hýsa skyldu safnaðarstarfið.  Ekki varð eining um þessa sáttaleið fremur en hinar fyrri. Loks var ákveðið á aðalsafnaðarfundi haustið 1991 að byggja nýja kirkju á gamla kirkjustæðinu.

Vinna við byggingu nýrrar Ísafjarðarkirkju hófst haustið 1992 og voru yfirsmiðir þeir Einar Valur Kristjánsson og Eiríkur Kristófersson.  Veggir og þak kirkjunnar er steinsteypt. Einangrað er utanfrá. Í ysta lagi múrhúðarinnar er líparítmulningur og ljær hann kirkjunni sinn gula lit. Kirkjan tekur 300 manns í sæti.   Einnig er hægt að opna yfir í safnaðarsal og fram í forkirkju og þannig má fá rými fyrir allt að 500 manns.   Á gólfi kirkjunnar er íslenskur grásteinn. Hann er einnig notaður í predikunarstólinn og í borðplötu altarisins.  Allt tréverk er úr eik.  Kirkjustólarnir voru hannaðir af Þórdísi Zoëga.  Altari, predikunarstóll og skírnarfontur eru hannaður af arkitekti með hliðsjón af kirkjustólunum.  Ráðgjöf varðandi hljómburð veitti Stefán Einarsson og þykir tónlist og söngur hljóma mjög vel í kirkjunni.   Á hliðaraltari við norðurvegg kirkjunnar er ný afsteypa af Kristslíkneski Thorvaldsens, gjöf frá Hnífsdalssöfnuði, en í gömlu kirkjunni var afsteypa af sama verki.  Til hliðar við Kristslíkneskið eru minningartöflur vegna nokkurra leiða, sem eru undir kirkjugólfinu. 

Kórveggur Ísafjarðarkirkju stóð auður fyrstu tíu árin meðan safnaðarheimilið var innréttað.  Haustið 2005 var efnt til samkeppni um hönnun nýs altarisverks.  Fjórum ungum listamönnum var boðið að senda inn tillögur.  Fyrir valinu varð hugmynd Ólafar Nordal, sem hún nefnir Fugla himinsins.  Verkið er byggt á þjóðsögunni um Lausnarann og lóurnar.  Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagan á þessa leið:

Einu sinni var Kristur að mynda fugla af leiri með öðrum börnum Gyðinga á sabbatsdegi.  Þegar börnin höfðu verið að þessari iðju um hríð bar þar að einn af Sadúseum; hann var aldraður og siðavandur mjög og átaldi börnin fyrir þetta athæfi þeirra á sjálfum sabbatsdeginum.  Hann lét sér þó ekki nægja ákúrurnar einar heldur gekk hann að leirfuglunum og braut þá alla fyrir börnunum. Þegar Kristur sá hvað verða vildi brá hann hendi sinni yfir allar fuglamyndirnar, sem hann hafði búið til, og flugu þeir þegar upp lifandi.  En það eru lóurnar og því er kvak þeirra „dýrrin“ eða „dýrrindí“, að þær syngja drottni sínum dýrð og lof fyrir lausnina frá ómildri hendi Sadúseans. Ef maður heyrir til lóunnar þetta fyrst á vorin: „Dýrrin, dýrrin“, veit það á gott; en heyri maður fyrst til hennar: „Óhú, óhú“, mun mótdrægt verða. 

Hin upprunalega helgisaga er varðveitt í Bernskuguðspjalli Tómasar, sem ritað var seint á annarri öld af kristnum mönnum í Mesópótamíu.  Það tilheyrir svokallaðri Tómasarhefð innan apokrýfra rita Nýja testamentisins.  Sagan finnst einnig í Kóraninum í breyttri útgáfu. 

Fuglar himinsins er gert úr 749 lóum, sem mótaðar voru í jarðleir af sóknarbörnunum og gestum þeirra undir handleiðslu höfundarins og Ólafar Oddsdóttur leirlistakonu.  Þannig er þetta altaristafla safnaðarins og lofgjörð hans til Guðs.  Hver fugl var merktur með númeri og teiknaður inn á uppdrátt og þannig ættu flestir að geta fundið aftur fuglinn sinn.  Þegar frá líður verður verkið minning um hendurnar og fólkið, sem sköpuðu það.  Altaristaflan var vígð með messu á 11. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, sama degi kirkjuársins og gamla kirkjan var vígð, sem árið 2007 bar upp á 19. ágúst.
 


 

Ísafjarðarkirkja - Staðsetning á korti.

 


Ísafjarðarkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd