Kópavogskirkja (1962)

Kópavogskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Kópavogskirkja var reist á árunum 1958-1962 eftir teikningum frá embætti húsameistra ríkisins sem Hörður Bjarnason veitti forstöðu á þeim tíma.  Ragnar Emilsson arkitekt hjá embættinu vann ásamt húsameistara mikið að teikningu  kirkjunnar. Grunnur hennar var helgaður þann 16. ágúst árið 1958 og hornsteinn lagður af biskupi Íslands þann 20. nóvember árið eftir. Það var svo þann 16. desember árið 1962 sem kirkjan var vígð af Sigurbirni Einarssyni þáverandi biskupi Íslands.

Kópavogskirkja er krosskirkja og að því leyti er hún hefðbundin en bogar hennar, sem svo mjög einkenna hana, gera hana sérstaska og gefa henni í senn bæði tignarlegt og mjúkt yfirbragð. Kirkjan þykir ein af fegurstu guðshúsum landsins og fagur vitnisburður um þá sem að unnu og verðug umgjörð um helgihald og tilbeiðslu. Hún stendur á stað sem nefnist Borgir eða Borgarholt en umhverfi hennar er friðað vegna þeirrar sérstöðu og þess margbreytileika  sem það býr yfir. Frá kirkjunni er útsýni mikið og fagurt enda eru þeir margir sem koma þangað bæði til að njóta hins mikla útsýnis og skoða kirkjunna og njóta þar friðar og andlegrar  uppbyggingar.

Steindir gluggar listakonunnar Gerðar Helgadóttur sem prýða glugga kirkjunnar setja mikinn svip á hana og ljá henni yfirbragð helgi friðar og listrænnar fágunar. Altarismynd eftir  listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur var sett upp árið 1990 og er hún byggð á frásögn í 13. kafla Jóhannesar-guðspjalls um það hvernig Kristur laugaði fætur lærisveina sinna. Listakonan Barbara Árnson gerði mynd sem er í  kirkjunni og sýnir Jesú blessa börn. Barbara gerði einnig fjórar myndir, unnar í messing sem eru á predikunarstól kirkjunnar. Þær eru táknmyndir fyrir guðspjallamennina fjóra. Ýmsir aðrir merkir hlutir eru í eigu kirkjunnar sem eiga sinn þátt í því að móta yfirbragð hennar og helgihald.  Þar má m.a. nefna fjóra hökla eftir Sigrúnu Jónsdóttur kirkjulistakonu og fagurlega gerða altarisstjaka.

Kópavogskirkja þykir afar vel heppnað guðshús enda vekur hún athygli jafnt Íslendinga og erlendra ferðalanga og myndir af henni hafa birtst í blöðum og tímaritum víða erlendis. Mikið er um að fólk komi til að skoða kirkjuna og fræðast um hana og hún er eftirsótt til hvers konar kirkjulegra athafna en hún tekur töluvert á fjórða hundrað manns í sæti.

Lesa má nánar um Kópavogskirkju, og allt sem henni tengist, á heimasíðu kirkjunar.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Kópavogskirkja - Staðsetning á korti.

 


Kópavogskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd