Krýsuvíkurkirkja (1857)

Krýsuvíkurkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja  í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar  og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla  kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Venjan var að messa í Krýsuvíkurkirkju tvisvar á ári. Kirkjan var í Hafnarfjarðarprestakalli.

Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010. Talið er að bruninn í Krýsuvíkurkirkju hafi verið óviljaverk. Mögulega hafi gestur skilið eftir logandi kerti í kirkjunni.

Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.

Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.

Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.

Krýsuvíkurkirkja var í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Krýsuvíkurkirkja - Staðsetning á korti.

 


Krýsuvíkurkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd