Landakotskirkja (1929)

Landakotskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Landakotskirkja, Basilíka Krists konungs eða Kristskirkja  er dómkirkja, það er embættiskirkja biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Kirkjan er í vesturbæ Reykjavíkur  í Landakoti.

Nafn kirkjunnar, Dómkirkja Krists konungs, Landakoti, er til heiðurs Drottni allsherjar, Guð og manni, en sérstök hátíð Krists konungs var sett á stofn árið 1925 af Píusi XI. Kirkjuklukkurnar þrjár eru tileinkaðar Kristi konungi, heilagri Maríu og heilögum Jósef.

Fyrstu kaþólsku prestarnir sem komu til Íslands eftir siðaskiptin voru Frakkarnir Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin. Þeir keyptu jörðina Landakot í Reykjavík og bjuggu í bóndabænum. Þeir byggðu litla kapellu við bæinn árið 1864. Nokkrum árum seinna var lítil timburkirkja reist við Túngötu, nálægt prestsetrinu í Landakoti. Kirkja þessi var helguð heilögu hjarta Jesú.

Eftir fyrri heimstyrjöldina fóru kaþólskir á Íslandi að ræða um nauðsyn þess að byggja nýja og stærri kirkju fyrir hinn vaxandi söfnuð. Ákveðið var að reisa kirkju í nýgotneskum stíl og var arkitektinum Guðjóni Samúelssyni falið að teikna hana. Kirkjan var vígð 23. júlí 1929 og var þá stærsta kirkja landsins.

Landakotskirkja var byggð í gotneskum stíl og vígð 23. júlí 1929. Turn kirkjunnar var aldrei fullgerður. Vilhjálmur van Rossum, kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa XI, vígði hana og Guðjón Samúelsson teiknaði hana. Hún þykir brautryðjendaverk, því hún var byggð úr steinsteypu, sem var nýung í byggingu gotneskra mannvirkja.

Kirkjan er helguð og eignuð Jesú Kristi, eilífum Guði og konungi, undir vernd alsællar Guðsmóður Maríu meyjar, hins helga Jósefs, hins heilaga Jóns Holabiskups Ögmundssonar og Þorláks helga Skálholtsbiskups.

Píus páfi gaf til kirkjunnar nokkra fágæta muni og er tvo þeirra að sjá í kirkjunni. Yfir háaltarinu er stytta af Kristi, þar sem hann stendur á jarðarkringlunni. Þetta er frummyndin og er hún skorin út í sedrusvið. Ekki eru fleiri eintök til í heiminum, því listamaðurinn, Gampanya frá Barcelona, bannaði að afsteypa yrði gerð af henni. Þá er fremst í kirkjunni útskorin tafla, sem Píus páfi gaf kirkjunni árið 1936. Hún sýnir kaþólsku kirkjuna, hina almennu kirkju, kalla þjóðir heims saman og leiða þær, þar sem María mey heldur á syni sínum, Jesú, yfir hvolfþaki Péturskirkjunnar. Listaverkið var gert í borginni Bozen í Tíról og var sérstök gjöf til páfa, en í tíð hans efldist trúboðsstarf kirkjunnar.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Landakotskirkja - Staðsetning á korti.

 


Landakotskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd