Síðumúlakirkja (1926)

Síðumúlakirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Síðumúlakirkja er í Reykholtsprestakalli í Borgarfjarðarprófastsdæmi. Síðumúli er bær og kirkjustaður í neðanverðri Hvítársíðu.  Síðumúlakirkja var í kaþólskum sið helguð Maríu guðsmóður og Þorláki biskupi. Hún var um aldir útkirkja frá Gilsbakka.

Núverandi kirkja var vígð á jóladag 1926 af herra Jóni Helgasyni biskupi. Kirkjusmiður var Auðunn sigurðsson frá Akranesi. Andrés Eyjólfsson, síðasti kirkjuhaldarinn, reisti hana í stað torfkirkju sem þar stóð áður. Kirkjuna afhenti hann söfnuðinum til eignar og umsjár á vígsludaginn.

Í kirkjunni er prédikunarstóll og altarisgráður úr fyrri kirkju, frá því um miðja 19. öld. Altaristaflan er olíumálverk frá 1928 eftir Eyjólf Eyfells listmálara, eftirgerð af annarri mynd, tilvitnun í orð Krists: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Hún sýnir Krist með börnunum með íslenzkt landslag að baki. Kaleik og patínu á kirkjan af silfri, einnig þrjá 17. aldar kertastjaka sem eru á altari, tvo einfalda en einn tvíarma. Einarma stjaka (kertapípu) á kirkjan smíðaðan af Leifi Kaldal, gefinn í minningu Önnu S. Stefánsdóttur og Jóns Einarssonar í Síðumúla. Finnsk kertapípa var gefin kirkjunni til minningar um Fróðastaðahjónin. Einnig á kirkjan silfurvasa frá 1960 eftir Leif Kaldal, minningargjöf.

Krosslaga skírnarsár úr graníti á marmarastöpli eftir Jóhannes Eyfells prýðir kirkjuna. Fornar róðuleifar, mynd af Maríu guðsmóður úr steini og Barbörumyndir á útskornum altaristöflum úr eldri kirkjum í Reykholti og Síðumúla eru varðveittar í Þjóðminjasafni.

Kirkjan á gamlar trafaöskjur með rósaflúri og hring í útidyrum úr látúni eða kopar með myndum og nöfnum guðspjallamannanna ásamt ártalinu 1661. Klukkur tvær eru í stöpli, önnur forn, hin með áletruninni „Monsieur Torbjörn Biodneson Anno 1722.“

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Síðumúlakirkja - Staðsetning á korti.

 


Síðumúlakirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd