Staðarkirkja í Aðalvík (1904)

Staðarkirkja í Aðalvík

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Staðarkirkja í Aðalvík var byggð árið 1904 en þá var torfkirkja sem reist var á milli 1850-1860 orðin illa farin og hálfhrunin. Kirkja hefur verið í Aðalvík frá því á miðöldum og í kaþólskri tíð var hún helguð Maríu guðsmóðir og Pétri postula. Til er máldagi kirkjunnar frá 1282 sem Árni biskup setti og á 15. öld mun kirkjujörðin hafa verið í eigu Vatnsfjarðar-Kristínar. Síðasti sóknarprestur Sléttuhreppinga var séra Finnbogi L. Kristjánsson. Hann lét af störfum árið 1945 og sjö árum seinna lagðist hreppurinn í eyði. j

Prestar á Stað í Aðalvík

Árni Loftsson

Árið 1678 var séra Árni Loftsson, prestur á Stað í Aðalvík, kærður fyrir galdra af mági sínum. Taldi hann að séra Árni bæri ábyrgð á veikindum sínum og konu sinnar og að hann hefði að auki pínt og deytt skepnur í sinni eigu. Auk þess kærði hann séra Árna fyrir að hafa kallað tengdaföður sinn „skálk ærulausan, ónýtan, ómyndugan og ófriðhelgan þjóf“. Sakir voru felldar niður og þótti einsdæmi á þessum tíma þegar um jafn alvarleg ákæruatriði var að ræða. Prestskapurinn hefur kannski ráðið þar úrslitum.
Snorri Björnsson

Um miðbik 18. aldar var séra Snorri Björnsson prestur á Stað í 16 ár. Síðar var hann prestur á Húsafelli í Borgarfirði. Margar sögur eru til af séra Snorra og kunnáttu hans. Fyrst eftir að séra Snorri kom að Stað voru Aðalvíkurbændur frekar óþægir við hann. Þeir smíðuðu t.d. líkkistu utan um löngu og fluttu hana til prestins. Var honum sagt að þetta væri niðursetningur norðan af Hornströndum sem þyrfti að jarða í kirkjugarðinum. Prestur á að hafa gengið íhugull í kringum kistuna og kveðið eftirfarandi vísu:

      Hér er komið kistuhró,
      klambrað saman af ergi,
      líkaminn er úr söltum sjó,
      en sálina finn eg hvergi.


Bað hann síðan mennina vinsamlegast að hverfa á brott og reyna aldrei neitt slíkt framar.


Vigfús Benediktsson

Eftir að séra Snorri hvarf úr héraðinu tók annar göldróttur prestur við Stað. Hét hann séra Vigfús Benediktsson og hefur verið nefndur Galdra-Fúsi.

Var sagt að hann hefði verið neyddur til að taka við Stað og því unað sér þar illa. Hann og kona hans Málmfríður voru einkar illa þokkuð og fór svo að lokum að þau áttu enga ósk heitari en að sökkva kirkjunni og söfnuðinum með. Til þess kvöddu þau söfnuðinn til messu.

Margmenni var í kirkjunni en prestur hvergi sjáanlegur, þegar kirkjan tók skyndilega að halla og lék á reiðiskjálfi. Þegar menn reyndu að komast út voru dyrnar fastar og opnuðust ekki fyrr en tveir menn sem hjónin höfðu átt í deilum við renndu sér á hurðina svo hún féll út með dyraumbúnaði og öllu. Presthjónin flýðu þá til fjalls.

Einn afkomenda Galdra-Fúsa var rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson sem skrifaði margt um þennan mæta forföður sinn.


 

Staðarkirkja í Aðalvík - Staðsetning á korti.

 


Staðarkirkja í Aðalvík - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd