Stafafellskirkja (1866)

Stafafellskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Stafafellskirkja er í Bjarnanesprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi. Stafafell er bær og kirkjustaður í Lóni. Þar var áður prestssetur og höfuðból. Skömmu eftir kristnitöku ár 1000 var kirkja byggð á Stafafelli. Kirkjan var helguð Maríu mey og því kölluð Maríukirkja.

Núverandi kirkja var byggð 1866 úr timbri. Í henni er gömul altaristafla talin frá um 1670, prédikunarstóllinn er gamall og á honum eru myndir af guðspallamönnunum. Stafafell hefur verið kirkjustaður frá fornu fari.

Árið 1907 var Stafafell aflagt sem prestssetur með lögum, sem kom til framkvæmda 1920, þegar sr. Jón Jónsson, síðasti prestur sem þar sat, lést. Kirkjunni er þjónað frá Bjarnarnesi.

Allt frá siðaskiptum fram yfir aldamótin 1900 höfðu 20 prestar setið staðinn og 13 þeirra hvíla í kirkjugarðinum.

Fjórar til fimm franskar fiskiskútur fórust í ofsaveðri við Horn og Lón 6. marz 1870. Fjöldi skipverja fórst en öðrum var bjargað. Fjörutíu þeirra voru jarðaðir í kirkjugarðinum að Stafafelli.

Fyrstu skráðu heimildir um athafnir í kirkjunni er að finna í Sturlungu. Þar er frá því sagt að 24. ágúst árið 1201 söng presturinn Guðmundur Arason er seinna varð Guðmundur biskup góði sálumessu í Stafa-fellskirkju. Þá hafði borist þangað frétt um andlát Brands biskups á Hólum.

Eftir lagaákvæðum frá 1907 sló ríkið eign sinni á allar eignir kirkjunnar. Jarðirnar seldi ríkið eftir mati, utan Krossaland sem enn er ríkiseign, nú í eyði.

Séra Bjarni Sveinsson sat staðinn frá 1862-1878. Á prestskaparárum hans var sú kirkja reist sem enn stendur á Stafafelli. Var hún byggð á árunum 1866-1868. Var það timburkirkja, sem kom í stað torfkirkju er áður var og var að falli komin. Séra Bjarni hýsti einnig Stafafellsbæ vel og smyndarlega.

Yfirsmiður við Byggingu kirkjunnar var Jón Jónsson, faðir Þorleifs Jónssonar alþingismanns í Hólum í Nesjum. Var þar vel og faglega að verki staðið. Jón var lærður trésmiður, lærði í Kaup-manna--höfn og hafði sveinsbref þaðan.

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á kirkjunni á þessari öld. Árið 1961 voru t.d. nýir gluggar settir í hana, veggir þiljaðir, hún máluð og myndir á predikunar-stól skýrðar upp. Var það verk unnið af Ásgeiri Guðmundssyni á Höfn.

Á árunum 1988 og 1989 voru gerðar gagngerðar lagfæringar og endurbætur á kirkjunni undir leiðsögn og yfirumsjón Árna Kjartanssonar arkitekts, sem lagði áherslu á að upphafleg gerð kirkj-unnar fengi notið sín. Auk Árna lögðu þar aðalhönd að verki frábærir smiðir, Halldór Sigurðs-son í Miðhúsum og Sigurður Geirsson á Höfn.

Marga góða gripi hefur kirkjan eignast. Má þar til nefna orgel, nýja altaristöflu málaða af ungri stúlku í sveitinni, Kristínu Stefánsdóttur á Hlíð, skírnarfont útskorinn af Ríkharði Jónssyni listamanni, gefinn á 100 ára afmæli kirkjunnar af sóknarbörnunum, kertastjaka, blómavasa, nýjan hökul, dregil á gólf, fermingarkirtla o.fl., gefið af velunnurum og kvenfélagi.

Ljósmynd Jóna Þórunn.


 

Stafafellskirkja - Staðsetning á korti.

 


Stafafellskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd