Stafholtskirkja (1877)

Stafholtskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Kirkja hefur staðið í Stafholti frá fornu fari. Hún var helguð heilögum Nikulási.

Þrátt fyrir að á staðnum sætu prestar, þá virðast leikmenn hafa haft ráð á honum um tíma. Meðal annars bjó Snorri Sturluson þar um þriggja ára skeið, svo og Ólafur Þórðarson hvítaskáld.
Núverandi kirkja í Stafholti var reist á árunum 1875-1877 og var með allra stærstu og glæsilegustu sveitakirkjum á sínum tíma. Í upphafi var þakturn á kirkjunni með dómkirkjukraga og lítil forkirkja. Prestur í Stafholti var þá sr. Stefán Þorvaldsson og stóð hann fyrir byggingunni. Kirkjan var afhent söfnuðinum til eignar og umsjár 1910. Sagt er að Björn Ásmundsson á Svarfhóli hafi flutt eitthvað af kirkjuviðnum utan af Akranesi í flota, sem síðan var slefað alla leið upp að Stafholti eftir Hvítá og Norðurá.

Kirkjan rúmar um 100 manns í sæti. Það einkennir hana að hringhvelfing er yfir kór og skilrúm milli kórs og kirkjuskips. Kirkjunni var breytt nokkuð 1948, reist ný forkirkja og turn settur á hana. Við það breytti hún nokkuð um svip hið ytra en varð á margan hátt rúmbetri og reisulegra hús.

Kirkjan á þessa gripi helsta: Altaristöflu sem Einar Jónsson myndhöggvari málaði og gaf kirkjunni, líkl. 1958. Kom hún í stað annarrar sem Þorsteinn Guðmundsson frá Hlíð í Gnúpverjahreppi hafði málað. Kaleikurinn er eftir Sigurð Þorsteinsson, íslenskan silfursmið sem starfaði í Kaupmannahöfn og var einhver þekktasti silfursmiður í Danmörku um sína daga. Er kaleikurinn með ártalinu 1748. Oblátuöskjur eftir Eggert Guðmundsson í Sólheimatungu. Skírnarfonturinn er eftir Ágúst Sigmundsson.

Tvær klukkur eru í turni. Önnur ber ártalið 1739 og er letrað á hana Jón Jónsen, Stafholti. Er hér án efa um að ræða sr. Jón Jónson sem prestur var í Stafholti á þessum tíma.

Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Stafholtskirkja - Staðsetning á korti.

 


Stafholtskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd