Stóra-Ásskirkja (1897)

Stóra-Ásskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Stóri-Ás er kirkjustaður í Hálsasveit. Kirkjusetur þar er fornt og kaþólskar kirkjur voru helgaðar Guði, Maríu guðsmóður, Andrési postula, Blasíusi biskupi og öllum helgum mönnum.

Kirkjan var frá fornu fari bændaeign eða þar til söfnuðurinn tók við henni um aldamótin 1900. Í máldaga kirkjunnar frá 1258, sem Sigvarður biskup setti, telst þriðjungur úr heimalandi liggja til kirkju og einnig tíund af Augastöðum, Giljum, Hálsi, Vatni, Kollslæk, Sigmundarstöðum og Refsstöðum. Samkvæmt Gíslamáldaga frá 1570 er hún talin eiga 20 hunduð í heimalandi. Síðar komu Augastaðir í stað Sróra-Ásshlutans.

Kirkjan sem nú stendur á Stóra-Ási var reist af kirkjubóndanum, Jóni Magnússyni, árið 1897. Hún er timburhús, 12 x 18 álnir að stærð og er nær óbreytt frá fyrstu gerð. Að innanmáli er kirkjan 5,90 x 4,70 m og forkirkjan 1,70 x 1,65 m. Árið 1965 var hún flutt af gamla bæjarstæðinu á grundirnar neðan við nýju bæjarhúsin sem þá höfðu verið reist. Þau hús eru ekki lengur notuð heldur hefur verið reistur bær vestan við kirkjuna handan við bæjarlækinn.

Kirkjan á nokkra góða gripi. Á altarinu, sem er frá 1837, standa gamlir einarma kertastjakar og fimm arma ljóshjálmur hangir neðan úr loftinu, gamlir gripir úr látúni. Skírnarfat á kirkjan af tini, stimplað 1726. Kaleikur og patína kirkjunnar eru af silfri, íslensk smíð frá miðri 19. öld, merkt IIE. Altarisdúkur af lérefti útsaumaður af Helgu Jónsdóttur, húsfreyju í Stóra-Ási, frá 1917 og altarisklæði af rauðu flosi frá 1879. Altarisklæðið saumaði Kristín Magnúsdóttir. Skrá fyrir kirkjuhurð smíðaði Einar Þórólfsson í Kalmannstungu og ber hún áletrunina SOLI DEO GLORIA ANNO 1726. Málverk yfir altari sýnir upprisuna, eftirgerð myndar eftir Carl Black. Af nýlegum gripum kirkjunnar er merkastur skírnarsár af rauðleitum steini úr Bæjargilinu í Húsafelli, með helgitáknum af eiri, gerður af Leifi Kaldal. Er sárinn gefinn af börnum sr. Einars Pálssonar og konu hans Jóhönnu Eggertsdóttur Briem.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Stóra-Ásskirkja - Staðsetning á korti.

 


Stóra-Ásskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd