Tungufellskirkja (1856)

Tungufellskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Í Tungufelli í Hrunamannahreppi er timburkirkja af eldri gerð turnlausra kirkna sem einkennast af því að veggir eru lágir og gluggar nema við þakbrún. Hún var reist árið 1856 af Sigfúsi Guðmundssyni forsmið sem einnig smíðaði Hrunakirkju og gömlu sóknarkirkjuna í Skálholti. Kirkjan er um 22 fermetrar að gólffleti og rúmar um 30 manns í sæti.

Talið er að kirkja hafi staðið á Tungufelli frá því um 1200 og sennilega mun lengur. Kirkjan var helguð Andrési postula í kaþólskum sið. Tungufellskirkja var útkirkja í Reykjadalsprestakalli en frá Hruna síðan 1819 þegar Reykjadalsbrauð var sameinað Hrunaprestakalli.

Tungufellskirkja var upphaflega timburklædd og tjörguð, bæði á veggjum og þaki en árið 1891 var hún bárujárnsklædd að hluta til og síðar að fullu árið 1915 er viðamiklar endurbætur fóru fram á kirkjunni. Þá fyrst var hún máluð jafnt utan sem innan og hálfþil milli kórs og kirkju sem verið hafði í kirkjunni frá upphafi var fjarlægt. Einnig var gangurinn inn kirkjuna þá breikkaður.

Að innanverðu er spjaldaþil á veggjum og spjaldahvelfing yfir kór, ein sú elsta í íslenskri timburkirkju. Altari, prédikunarstóll og umbúnaður altaristöflunnar er eftir Ófeig Jónsson frá Heiðabæ í Þingvallasveit og voru þeir gripir í torfkirkju sem áður stóð í Tungufelli og Ófeigur smíðaði. Klukkur kirkjunnar eru með rómönsku lagi og eru með allra elstu kirkjuklukkum landsins.

Kirkjan hefur verið í eigu og umsjá Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1987. Árið 1991 hófust viðgerðir á vegum safnsins en framkvæmdir hafa legið niðri um nokkurt skeið.

Meðal dýrgripa kirkjunnar eru tvær fornar kirkjuklukkur sem hanga uppi í rjáfri á kirkjuloftinu. Þær eru taldar vera frá 12. öld. Einnig er þar lítill silfurkaleikur með patínu, og í Þjóðminjasafni Íslands er ævagamall, kross úr kirkjunni. Krossinn er 52 cm á hæð og hefur verið altariskross. Hann er heillegastur þeirra smeltkrossa, sem Þjóðminjasafnið á leifar af, og er merkilegur gripur fyrir marga hluta sakir. Eigendur Tungufells gáfu Þjóðminjasafni Íslands kirkjuna árið 1987.

Ljósmynd Jóna Þórunn.


 

Tungufellskirkja - Staðsetning á korti.

 


Tungufellskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd