Viðvíkurkirkja (1886)

Viðvíkurkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Viðvíkurkirkja er í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Þar voru kaþólskar kirkjur helgaðar heilögum Ambrósíó biskupi. Rípurprestar þjónuðu kirkjunni til 1829, þegar hún varð útkirkja frá Hólum. Prestssetur var þar frá 1854 til 1940, þegar það var flutt að Vatnsleysu og síðar til Hóla 1952.

Timburkirkjan á hlöðnum grunni, sem nú stendur í Viðvík, var byggð 1886 en lengd 1893 og turni bætt við. Altaristaflan yfir dyrum er þýsk frá 1722, máluð á tré og sýnir kvöldmáltíðina. Hin taflan er eftir séra Magnús Jónsson, prófessor frá 1938 og sýnir uppstigninguna. Sveinn Ólafsson, myndskeri, skar skírnarsáinn út. Jón Espólín, sýslumaður, gaf kirkjunni góðan kaleik með ártalinu 1822. Meðal bóka kirkjunnar er gott eintak af Steinsbiblíu.

Viðvíkurkirkja er timburhús, 10,12 m að lengd og 5,74 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 1,96 m að lengd og 1,98 m á breidd. Risþak er á kirkju klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili og stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er miðpóstur og þverrimar utan á rúðum. Einn gluggi er á hvorri hlið turns og einn á framhlið yfir dyrum og í þeim miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Krappar eru undir vatnsbrettum. Stöpull nær upp að mæni kirkju. Á honum er flatt þak og á því lágur ferstrendur turn með háa ferstrenda spíru sem gengur út undan sér neðst. Handrið með renndum pílárum og hornstólpum eru á frambrúnum þaka stöpuls og turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Ljósmynd Friðjón Árnason Melgerði, Lundareykjardal, Borgarfirði.


 

Viðvíkurkirkja - Staðsetning á korti.

 


Viðvíkurkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd